Rekstrarhagnaður var lítill eða enginn hjá matvörurisunum þremur; Högum, Kaupási og Samkaupum, á árinu 2005. Samdóma álit yfirmanna fyrirtækjanna er að afkoman hafi verið óviðunandi. Þetta kemur fram í úttekt Viðskiptablaðsins sem birtist í dag.

Forstjóri Haga, sem er með stærsta markaðshlutdeild og rekur Bónus, 10-11 og Hagkaup, segir að lítill hagnaður sé til vitnis um mikla samkeppni á markaðnum, en forstjóri Kaupáss og framkvæmdastjóri Samkaupa saka Haga um að hafa reynt að bola keppinautum út af markaðnum með því að selja vörur undir kostnaðarverði -- það skýri laka afkomu.

Forstjóri Haga svarar því til að það sé illmögulegt til langs tíma, þar sem stofnkostnaður sé lítill og auðvelt fyrir ný fyrirtæki að komast inn á markaðinn, hækki markaðsráðandi fyrirtæki verð óeðlilega mikið.

Allir eru þeir þó sammála um að innflutningshöft, vörugjöld og álögur ríkisins stuðli að því að matvöruverð hér á landi er 42% hærra en að jafnaði í löndum ESB, eins og kemur fram í skýrslu samkeppniseftirlita Norðurlandanna, sem Samkeppniseftirlitið kynnti í desember. Forstjóri Samkeppniseftirlitsins, Páll Gunnar Pálsson, tekur undir það og segir jafn framt að ryðja verði úr vegi hugsanlegum ólögmætum samkeppnishindrunum. Einnig verði að skoða hvort tryggja beri betri aðgang birgja að matvörumarkaðnum.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.