*

sunnudagur, 16. júní 2019
Innlent 5. júní 2019 19:05

Reksturinn í hendur lúxushótelkeðju

Lúxushótelkeðjan Six Senses mun sjá um rekstur lúxushótels sem mun rísa á Suðausturlandi.

Sveinn Ólafur Melsted
Glæsilegt útsýni mun blasa við hótelgestum.
Aðsend mynd

Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá síðasta sumar vinnur fjárfestirinn Áslaug Magnúsdóttir að sínu fyrsta þróunarverkefni hér á landi, lúxushóteli við jörðina Svínhóla í um tuttugu mínútna akstursfjarlægð frá Höfn í Hornafirði og gengur svæðið undir nafninu Álfaland. Einnig er stefnt að byggingu einbýlishúsa sem seld verða einstaklingum sem orlofshús, auk fyrrnefnds lúxushótels. Búist er við að kostnaður við verkefnið muni nema um fimm milljörðum króna. Nýlega var svo gengið frá samningum við alþjóðlegu lúxushótelkeðjuna Six Senses sem felur í sér að keðjan mun sjá um rekstur lúxushótelsins við Svínhóla. Mun hótelið bera nafnið Six Senses Össurá Valley.

Áslaug segir að viðræðurnar við Six Senses hafi staðið yfir í tæplega eitt ár. „Á síðasta ári funduðum við með fulltrúum nokkurra lúxushótela og fundum við fyrir miklum áhuga frá þeim flestum. Að lokum mátum við það svo að Six Senses væri besti samstarfsaðilinn fyrir þetta verkefni. Hótelin þeirra eru yfirleitt ekki staðsett í stórborgum, heldur á stöðum þar sem fólk þarf að leggja á sig aðeins meira ferðalag til þess að komast á staðinn. Þeir leggja mikla áherslu á tengingu við náttúruna og sjálfbærni. Til marks um það er alltaf mikil ræktun á hótelsvæðunum þeirra, auk þess sem plastumbúðir eru bannaðar. Við erum mjög spennt fyrir þessari sjálfbærnihugsun. Þá eru þeir þekktir fyrir að bjóða upp á glæsilega spa-aðstöðu og gott úrval af afþreyingarmöguleikum. Það má því segja að þeirra áherslur hafi passað best við okkar áherslur."

„Þó að lagt sé upp með að laða að fólk frá öllum heimshornum á þennan guðdómlega stað, þá erum við líka að hugsa til þess að Íslendingar geti sparað sér sporin og flugið, og tekið út sína djúpslökun og upplifun þarna. Við einblínum því bæði á erlenda markaðinn sem og þann innlenda," segir Stuðmaðurinn Jakob Frímann Magnússon, en hann tekur einnig þátt í verkefninu.

Stefnt á opnun hótelsins árið 2022

Að sögn Áslaugar var Six Senses bæði í fyrra og árið áður valið besta hótelvörumerki í heiminum af lesendum tímaritsins Travel + Leisure. „Við erum mjög ánægð með að hafa stuðlað að komu þeirra til Íslands. Forstjóri Six Senses er mjög spenntur fyrir þessu verkefni. Hann sagði að þetta væri flottasti staður fyrir hótel sem hann hefði nokkurn tímann séð. Þetta er maður sem hefur starfað innan hótelbransans í yfir þrjátíu ár og því um ansi stórt hrós að ræða."

„Viðræðurnar við þá hafa ekki einungis snúist um samninga, fjármál og skipulag, heldur hugmyndafræðina alla. Forstjórinn var svo snortinn af Íslandi og staðsetningu hótelsins að hann lagði hjartað og sálina að veði til þess að koma þessu í réttan farveg," bætir Jakob Frímann við.

Jakob segir að stefnt sé að því að framkvæmdum ljúki og hótelið hefji starfsemi árið 2022.

„Núna höfum við í rúmt ár verið að fara í gegnum þá ferla sem óhjákvæmilegir eru þegar svona stórt verkefni er annars vegar. Við höfum átt í góðu samstarfi við skipulagsyfirvöld á svæðinu sem og allar þær stofnanir sem ber lögum samkvæmt að hafa afskipti af máli sem þessu. Við erum komin á þann stað núna að við gerum okkur vonir um að jarðvegsframkvæmdir, sýnataka og annað sem því tilheyrir, geti hafist áður en árið rennur sitt skeið. Markmiðið er að hótelið hefji fulla starfsemi árið 2022."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Umfjöllun um nýsköpunarfyrirtæki á sviði læknavísinda.
  • Fjallað er um afkomu Sparisjóðanna.
  • Nýtt fyrirtæki í fjártækni fær veglega fjármögnun.
  • Fjallað er um fjórðu iðnbyltinguna í bönkunum.
  • Viðtal við Marinó Örn Tryggvason, nýráðinn forstjóra Kviku.
  • Fjallað er um stöðu ferðaþjónustubransans eftir fall WOW.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað ásamt Tý sem fjallar um ríkisrekstur.
  • Óðinn fjallar um atvinnuleysi í Evrópusambandinu.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is