*

þriðjudagur, 23. júlí 2019
Innlent 21. janúar 2018 10:36

Reksturinn í London mikilvægur

Stærstu verkefni LOGOS á síðasta ári sneru að kaupum og sölu á fyrirtækjum.

Ritstjórn
Helga Melkorka Óttarsdóttir, einn eigenda og framkvæmdastjóri LOGOS.
Haraldur Guðjónsson

LOGOS er stærsta lögmannsstofan hér á landi og sérhæfir sig í þjónustu við íslenskt og alþjóðlegt viðskiptalíf. Helga Melkorka Óttarsdóttir, hrl., einn eigenda og framkvæmdastjóri LOGOS, segir að fyrirtæki leggi mikla áherslu á gæði þjónustunnar og að vera með öfluga sérfræðinga í sínum röðum.

„Við viljum vera alltaf til taks eins og atvinnulífið þarf á að halda á hverjum tíma, bæði fyrir innlend fyrirtæki og eins fyrir erlenda aðila sem hafa áhuga á að fjárfesta á Íslandi eða eru með starfsemi hér. Eins og oft er í rekstri fyrirtækja er gott starfsfólk okkar aðalsmerki, enda veitum við sérhæfða þjónustu þar sem þekking, hæfni og reynsla er grunnurinn að því sem við gerum fyrir viðskiptavinina,“ segir hún.

Skrifstofan í London

Aðspurð segir hún að afkoma liðins árs sé í heildina ágæt en uppgjörsvinnu sé ekki fyllilega lokið. Skrifstofa LOGOS í London hafi gengið mjög vel þau tólf ár sem hún hefur verið í rekstri. „Góður hluti af afkomunni kemur frá rekstrinum í London,“ segir hún.

Helga Melkorka segir að stærsti einstaki málaflokkurinn á verksviði Logos á seinasta ári tengist kaupum og sölu á fyrirtækjum, verkefni sem oft á tíðum fari yfir landamæri, sem kalli á samvinnu á milli lögmanna á skrifstofunni í Reykjavík og London.

„Þjónustan sem við bjóðum fyrirtækjum er fjölbreytt en meðal annarra sviða má nefna aðstoð við fyrirtæki skráð á markað, aðstoð við fjármálafyrirtæki og önnur fyrirtæki sem eru bundin af flóknu regluverki, fjármögnun fyrirtækja, skattaréttur, samkeppnisréttur, vinnumarkaðsréttur og hugverkaréttur, svo nokkur svið séu nefnd,“ segir hún.

Verkefni lögmanna frá einum tíma til annars eru alla jafna áþekk að hennar sögn, en áherslubreytingar verði þó vegna breytinga í rekstri fyrirtækja og atvinnulífinu almennt. „Undanfarin ár hefur síaukin áhersla verið lögð á hlítingu við reglur hjá viðskiptavinum okkar, þ.e. fyrirtæki vilja tryggja að þau fylgi gildandi reglum á hverjum tíma,“ segir Helga Melkorka.

„Gerðar eru úttektir og greiningar og á grundvelli þeirra eru úrbætur gerðar, auk þess sem fræðsla er fyrir starfsfólk á inntaki gildandi reglna. Þessi vinna fyrirtækjanna leiðir til þess að verulega er dregið úr áhættu á brotum á lögum og reglum, mun minni stjórnendatími fer í verkefnið en ef lögbrot koma til og dregið er verulega úr hættu á stjórnvaldssektum eða öðrum viðurlögum. LOGOS hefur aðstoðað mörg fyrirtæki við úttektir sem þessar og fer þeim fjölgandi.“

Vakandi fyrir tækniframförum og nýju regluverki

Hún segir afar ánægjulegt fyrir Logos að vera á lista yfir framúrskarandi fyrirtæki Keldunnar, um sé að ræða viðurkenningu sem sé mikilvæg staðfesting á góðu gengi fyrirtækisins.

„Við munum hér eftir sem hingað til gera okkar besta í að sinna við- skiptavinum okkar á sama tíma og við erum vakandi yfir rekstrinum,“ segir hún. „Við horfum jákvæðum augum fram á við. Áfram byggjum við starfsemi okkar á mikilli reynslu og þekkingu á sama tíma og við erum vakandi fyrir nýjungum og því sem koma skal. Við leggjum okkur fram við að fylgjast með tækniframförum og nýju regluverki, þannig að við getum veitt viðskiptavinum við- eigandi þjónustu á hverjum tíma.“

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér.