Forsvarsmenn franska bílarisans Renault hafa skrifað undir samning við konungsveldið í Marokkó um að reisa risastórt verksmiðjusvæði í Tangiers-borg. Hafist verður handa við byggingu svæðisins síðar í þessum mánuði og gera áætlanir ráð fyrir að þar verði framleiddar 200.000 bifreiðar á ári frá og með árinu 2010. Renault gerir einnig ráð fyrir að framleiða Nissan bifreiðar í verksmiðjunni en sem kunnugt er þá á Renault stóran hlut í japönsku bílaverksmiðjunum.

Heildarfjárfestingin nemur um 60 milljörðum íslenskra króna. 6000 manns munu starfa í tengslum við verksmiðjuna og talið er að verkefnið muni skapa í heildina yfir 30.000 ný störf. Fjárfestingin skiptir miklu fyrir íbúa Marokkó en mikið atvinnuleysi ríkir á svæðinu og töluvert um að fólk smygli sér yfir til Evrópu í leit að lífsviðurværi.