Útflutningsmöguleikar íslenskrarfatahönnunar eru töluverðir að mati Guðmundar Gunnarssonar, sölustjóra alþjóðasviðs 66°NORÐUR, en fyrirtækið selur nú vörur í rúmlega 500 verslunum í yfir 10 löndum víðs vegar um heiminn. ,,66°NORÐUR er stórt vörumerki á íslenskan mælikvarða og við höfum verið að flytja út vörur í þónokkur ár, en þrátt fyrir það erum við bara rétt byrjuð að snerta yfirborðið.“

,,Þar sem okkur gengur best og þar sem við finnum mestan meðbyr er í þessum löndum sem eru nálægt okkur, í Þýskalandi, Bretlandi og á Norðurlöndunum sérstaklega. Okkar áætlanir á næstu árum eru að halda áfram að byggja á þeim mörkuðum en þá sérstaklega í Þýskalandi og Bretlandi.“

Styrkleiki að vera frá Íslandi
Spurður um helstu þröskulda í útflutningsstarfsemi 66°NORÐUR segir Guðmundur að samkeppnin sé töluverð í framleiðslu á útivistarfatnaði. ,,Við erum að keppa við risa á þessum markaði þannig að þótt við séum stór á Íslandi þá erum við lítil í stóra samhenginu. Á móti því kemur að við höfum einnig nokkra styrkleika sem hjálpa okkur. 90% af framleiðslu okkar fara fram innan Evrópu þar sem við höfum verksmiðju í Lettlandi. Það er tvímælalaust styrkleiki því að það eru ekkert mörg útivistarmerki sem framleiða vörur sínar í eigin verksmiðjum – hvað þá innan Evrópu. Af ýmsum ástæðum framleiða erlendir samkeppnisaðilar aðallega í stórum verksmiðjum í Kína en það fyrirkomulag hefur vissulega sína kosti og galla.“

Viðtalið við Guðmund Gunnarsson er að finna í blaðinu Tíska, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .