Hæstaréttarlögmennirnir Ragnar H. Hall og Þorsteinn Einarsson telja réttast að dómstólar skeri úr um þau ágreiningsmál sem enn eru uppi um fordæmisgildi ólöglegra gengistryggðra lána.

Ragnar og Þorsteinn héldu erindi á morgunverðarfundi Samtaka Iðnaðarins á Grand Hóteli í dag. Þar var til umfjöllunar dómur Hæstaréttar í máli hjónanna Sigurðar Hreins Sigurðssonar og Mariu Elviru Mendez gegn Frjálsa fjárfestingarbankanum. Ragnar var lögmaður hjónanna. Eins og kunnugt er komst dómur að þeirri niðurstöðu að ólöglegt hafi verið hjá lánveitanda fasteignaláns, Frjálsa fjáfestingabankanum, að rukka óverðtryggða vexti aftur í tímann í stað samningsvaxta á gengistryggðu láni.

Ragnar sagði það lögfræðiálit sem lögmannsstofan LEX vann fyrir Samtök fjármálafyrirtækja um málið nokkuð gott og að það sé góð kortlagning á vandanum, en álitið var birt í síðustu viku. Honum þykir þó að í álitinu sé reynt að þrengja kosti skuldara um of. Þá sé gerður greinarmunur á stórfyrirtæki annars vegar og minni fyrirtækjum hins vegar, og sagt að fordæmisgildi dómsins nái ef til vill ekki yfir lán stærri fyrirtækja.

Rangar sagði dóminn ekki gefa tilefni til slíkrar flokkunar. Vel geti farið að dómar í framtíðinni skeri úr um slíkt en það sé ekki til umfjöllunar í tiltekinni niðurstöðu Hæstaréttar. Ekkert standi um hverjir falli undir dóminn þar.

Þorsteinn sagði að líkt og með aðra gengisdóma sé hann þýðingarmikill fyrir skuldara og skýri stöðu skulda. En líkt og með fyrri dóma vakna fleiri spurningar þegar öðrum er svarað. Hann sagði niðurstöðuna skýra um að bönkum sé ekki heimilt að rukka vexti aftur í tímann, að því gefnu að lántaki hafi staðið í skilum. Þorsteinn var lögmaður þrotabús Motormax í máli er varðaði gengistryggð lán til fyrirtækja.

Lagasetning óráð

Á fundinum voru Ragnar og Þorsteinn spurðir um hvort þeir telji að Alþingi þurfi að bregðast við dóminum með lagasetningu, líkt og gert var í desember 2010 í kjölfar þess að gengistryggð lán voru dæmd ólögleg.

Ragnar sagðist hafa efasemdir um að endalausar reglusetningar leysi vandann. Lögmennirnir voru samhljóma um að skera þyrfti úr ágreiningi í gegnum dómstóla. „Ef haldið verður á sömu braut þá styttist í að Alþingi fari að senda dómstólunum dómsorðið," sagði Ragnar og vísaði í Árnalögin svokölluðu frá því í desember 2010.

Þorsteinn sagði hugmyndir um að gerðardómur skeri úr um álitamál ekki raunhæfan kost. Ástæðan sé sú að gerðardómur bindi aðeins aðila sem falla undir dóminn. Hann sagði það vandséð að hægt sé að binda tugi þúsunda aðila undir gerðardóm. Enn fremur verði réttur ekki tekinn af fólki til þess að leita réttar síns fyrir dómstólum.

Þorsteinn mælti fyrir því að dómsmálum um gengistryggingu lána verði flýtt í dómskerfinu. Þannig gæti verið hægt að fá skýrari svör á fjórum til fimm mánuðum, jafnvel fyrr. Hann sagði þó engann geta skylda dómara til þess að hlýta óskum lögmanna um skjótari afgreiðslu mála.