Stofnandi tískuvörukeðjunnar ZÖRU, Rosalia Mera, hélt hádegisfyrirlestur í Háskólanum í Reykjavík í dag. Fyrirlesturinn bar yfirskriftina „Konur, völd og samfélagsábyrgð.“

Þar fjallaði hún um samfélagsábyrgð og hvernig ZARA hefur unnið að henni. Einnig fór hún yfir stofnun fyrirtækisins og hugmyndafræðina á bak við það.

Rosalia Mera segir samfélagsábyrgð alltaf hafa verið órjúfanlegur hluti af rekstri fyrirtækisins.

,,Í upphafi var þetta ákveðin skuldbinding gagnvart samfélaginu. Við vildum vera virkir meðlimir í samfélagi okkar og búa til störf. Þannig gátum við lagt okkar af mörkum til að bæta efnahag héraðsins.“

ZARA einbeitti sér að því í upphafa að hanna og framleiða tískufatnað á verði sem allir gætu ráðið við. Áður höfðu bara hástéttir Spánar haft efni á hátískufatnaði en það breyttist með tilkomu ZÖRU. Þannig hafi fyrirtækið, að hennar sögn, verið jafnréttisfyrirtæki í eðli sínu frá upphafi.

Hún segist sannfærð um að samfélagsábyrg muni skipa æ meiri sess í rekstri fyrirtækja enda séu neytendur að þrýsta á fyrirtækin út um allan heim. Neytendur vilji að fyrirtækin axli ábyrgð og þar með neyðast þau til að bregðast við.

,,Einu sinni var talað um markaðssetningu fyrirtækja út í samfélagið en það á ekki lengur við. Nú er talað um samfélagsábyrgð fyrirtækja,“ segir hún.

Fyrirlesturinn í dag var á vegum MANNAUÐS og var mjög vel sóttur. MANNAUÐUR er samstarfsverkefni Háskólans í Reykjavík, Landsbankans, Deloitte, Árvakurs og Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Í fyrirlestri sínum fór Rosalia Mera m.a. yfir stofnun ZÖRU, gildi fyrirtækisins og rakti fyrstu ár þess.

Hún sagði mikinn skort hafa ríkt á Spáni á áttunda áratugnum og stofnun fyrirtækisins hafi verið hrein nauðsyn. Þau hafi þurft að sjá fyrir sér með einhverju móti.

,,Það var skortur á tækifærum og við bjuggum þau einfaldlega til,“ sagði hún.

Hún segir að verkefni sem séu sprottin úr slíku þurfi að búa til mikið úr litlu og það hafi verið það veganesti sem þau lögðu af stað með í upphafi.

_____________________________________

Í Viðskiptablaðinu á morgun er að finna viðtal við Rosalia Mera. Áskrifendur geta, frá kl. 21 í kvöld lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .