Reykjavíkurborg hefur samþykkt frumvarp að fjárhagsáætlun þar sem gert er ráð fyrir að ekki verði nýtt ný heimild frá Alþingi um hækkun útsvars og að fasteignaskattar verði ekki hækkaðir. Vinstri græn bókuðu mótmæli við því að útsvar yrði ekki hækkað og segja að það veki „furðu að meirihluti borgarstjórnar skuli ekki fullnýta heimild sveitarfélagsins til hækkunar útsvars“. Í bókuninni kemur fram að niðurstaðan feli í sér að meirihlutinn sé „algjörlega ótengdur veruleikanum að því er varðar tekjumöguleika sveitarfélagsins á erfiðum tímum,“ að því er segir í tilkynningu frá VG.

Gert er ráð fyrir hallalausri fjárhagsáætlun fyrir A-hluta borgarsjóðs og að heildartekjur borgarinnar verði rúmir 57 milljarðar króna.

Útgjöld til velferðarmála verða aukin um rúm 19% en laun borgarfulltrúa og æðstu stjórnenda lækkuð um 10%.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg þar sem frumvarpið er kynnt er eftirfarandi haft eftir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur borgarstjóra: „Í frumvarpinu er forgangsraðað í þágu þess sem skiptir mestu máli. Með samstilltu átaki stjórnenda og starfsmanna og þverpólitískri vinnu í aðgerðarhópi borgarráðs munum við standa vörð um grunnþjónustuna, verðskrár og störfin hjá borginni. Frumvarpið er þannig í samræmi við aðgerðaráætlun borgarstjórnar sem samþykkt var einróma síðasta haust. Fjárhagsáætlunin endurspeglar einnig sameiginlegan vilja allrar borgarstjórnar um að standa með borgarbúum við þessar aðstæður. Hún endurspeglar einnig ný vinnubrögð og stóraukna samvinnu borgarfulltrúa meirihlutans og minnihlutans, sem er mikilvægt við þessar aðstæður. Með sameinuðu átaki viljum við tryggja að Reykjavík verði áfram borg tækifæra, velferðar og lífsgæða.“