Reykjavíkurborg hefur stefnt Kópavogsbæ fyrir dóm til að fá aðgang að borholum á Vatnsendasvæðinu. Borgin sakar bæinn um að efna ekki samning frá árinu 2007, sem gerði ráð fyrir að Kópavogsbær afsalaði sér landsvæði í Vatnsendakrika til Reykjavíkur gegn því að Kópavogsbær fengi að leggja veg og vatnsleiðslu um land Reykjavíkur.

Greint er frá málinu í Fréttablaðinu í dag. Rætt er við Kristbjörgu Stephensen borgarlögmann sem segir að Reykjavíkurborg hafi efnt sinn hluta samningsins. Um er að ræða borholur sem Orkuveitan boraði árið 1991 í Vatnsendakrika.

Málinu var stefnt fyrir dóm í síðustu viku og hefur Kópavogsbær frest fram yfir réttarhlé til þess að skila greinargerð í málinu.