Sjö einstaklingar sækjast eftir því að verða skipaðir dómarar við Landsrétt en tvö embætti við réttinn voru auglýst laus til umsóknar í síðasta mánuði. Í hópi umsækjenda eru héraðsdómararnir Ástráður Haraldsson og Jón Höskuldsson og lögmaðurinn Jóhannes Rúnar Jóhannsson en þeir voru allir meðal þeirra fjögurra sem voru metnir í fimmtán hæfustu er rétturinn var skipaður í fyrsta sinn.

Bæði Ástráður og Jóhannes Rúnar stefndu ríkisins vegna embættisfærslna þáverandi dómsmálaráðherra, Sigríðar Á. Andersen, og voru þeim dæmdar miskabætur vegna þessa. Hins vegar tókst þeim ekki að sýna fram á fjárhagslegt tjón og var því ekki fallist á það. Mál Jóns Höskuldssonar gegn ríkinu bíður meðferðar Hæstaréttar ríkið var sýknað af skaðabótakröfu hans í Landsrétti fyrr í vor. Sömu sögu er að segja af dómsmáli Eiríks Jónssonar gegn ríkinu en hann var nýverið skipaður dómari við réttinn en hafði áður ekki hlotið náð fyrir augum ráðherra.

Ragnheiður Bragadóttir, sem einn dómaranna fjögurra sem hefur ekki sinnt dómstörfum frá dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu, er í hópi umsækjenda nú. Hún hefur áður sótt um laus embætti til að reyna að geta tekið til starfa á ný. Tveir dómarar af þeim fjórum, sem ekki hafa getað gegnt starfi sínu undanfarið, hafa þegar hlotið nýja skipun við réttinn. Það eru þau Ásmundur Helgason og Arnfríður Einarsdóttir.

Aðrir umsækjendur nú, samkvæmt tilkynningu frá Stjórnarráðinu, eru lögmaðurinn Stefán Geir Þórisson og héraðsdómararnir Hildur Briem og Kjartan Bjarni Björgvinsson sem jafnframt er formaður Dómarafélags Íslands. Skipað verður í embættin eins skjótt og unnt er eftir að dómnefnd um hæfni umsækjenda hefur skilað umsögnum um umsækjendur.

Þá losna brátt tvö embætti dómara við Hæstarétt en Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson hafa beðist lausnar úr réttinum. Þau embætti hafa ekki verið auglýst.