Stefnt er að því að ná samstöðu allra flokka á þingi um afgreiðslu frumvarpsins um Icesave-ríkisábyrgðina, segir Björgvin G. Sigurðsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar.

Fundur stendur nú yfir á Alþingi með fulltrúum stjórnar og stjórnarandstöðu. Innan fjárlaganefndar Alþingis hefur verið unnið að því að setja fyrirvara við ríkisábyrgðina. Þeir lúta m.a. að greiðslugetu ríkisins. Þannig verði til dæmis samningarnir endurskoðaðir gangi tilteknar forsendur ekki eftir.

„Markmiðið er að fyrirvararnir verði þannig að samningarnir standi," segir Björgvin þegar hann er spurður hvort ekki sé verið að hafna samningunum með því að setja við þá fyrirvara.

Hann segir að samþykki Alþingi ríkisábyrgðina með fyrirvörum muni ráðamenn þjóðarinnar væntanlega fara í það að útskýra málið fyrir Hollendingum og Bretum. Alþingi sé einfaldlega að tala og framkvæmdavaldið geti ekki annað en tekið mið af því.

Hefur verið í nefnd í rúman mánuð

Fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, mælti fyrir frumvarpinu um Icesave-ríkisábyrgðina á Alþingi í lok júní og eftir fyrstu umræðu var því vísað til fjárlaganefndar Alþingis en utanríkismálanefnd og efnahags- og skattanefnd fjölluðu einnig um málið.

Fjárlaganefnd hefur því nú haft málið til umfjöllunar í rúman mánuð. Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, sagði í samtali við Viðskiptablaðið í gær að stefnt væri að því að afgreiða málið úr nefnd um helgina.

Frumvarpið í heild má finna hér.