Japanska matsfyrirtækið Rating and Investment Information (R&I) tilkynnti í dag að það hefði gefið Kaupþingi banka hf. lánshæfiseinkunnina A+. Að mati R&I eru horfur fyrir lánshæfiseinkunn bankans stöðugar. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Í tilkynningu R&I segir að einkunnin endurspegli sterka stöðu Kaupþings banka á innanlandsmarkaði sem og dreifðari tekjumyndun og útlánaáhættu í kjölfar útrásar til Bretlands og Norðurlanda. Að auki er litið til góðrar arðsemi og trausts eignasafns. Einkunnin tekur ennfremur mið af hinu litla og sveiflugjarna íslenska hagkerfi og fjármálamarkaði, áhættu af rekstri bankans í Bretlandi og mögulegrar áhættu samhliða hröðum vexti bankans.

R&I nefnir einnig að þrátt fyrir lítinn innlánagrunn og mikilvægi heildsölumarkaða í fjármögnun bankans, hafi stjórnendur hans lækkað verulega endurfjármögnunaráhættuna í fyrra með aukinni fjölbreytni í fjármögnun, lengri meðallíftíma skulda og varfærinni lausafjárstýringu.

R&I er þriðja matsfyrirtækið sem metur Kaupþing banka. Bankinn er með langtímaeinkunn frá Moodys Investor Service, Aa3, og Fitch Ratings, A.


?Fjölgun á fjármögnunarleiðum bankans verður áfram lykilatriði fyrir Kaupþing banka og Asíumarkaður mun leika þar stórt hlutverk. Við teljum að góð lánshæfiseinkunn frá R&I, sem er vel þekkt á fjármálamörkuðum Asíu, muni
styrkja okkur enn frekar til að koma til móts við núverandi fjárfesta og laða að nýja, segir Guðni Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Fjárstýringar í tilkynningunni.


R&I varð til við samruna Nippon Investors Service (NIS) og Japan Bond Research Institute (JBRI) árið 1998. JBRI hóf að gefa út lánshæfismat 1977 og er elsta lánshæfisfyrirtæki Japans. R&I hefur lagt mat á lánshæfi fleiri útgefenda en nokkurt annað lánshæfisfyrirtæki í Japan. Þann 30 apríl 2007 nam fjöldi lánshæfiseinkunna á japönskum útgefendum hjá R&I alls 681. Auk sterkrar stöðu á japönskum fjármálamarkaði, leggur R&I mat á lánshæfi ýmissa alþjóðlegra útgefenda og verðbréfa.