Breski auðjöfurinn Richard Branson, stofnandi og eigandi flugfélagsins Virgin Atlantic Airways efast um að öll stóru bandarísku flugfélögin muni lifa af næstu 12 – 18 mánuði.

Þetta sagði Branson í viðtali Telegraph Travel í morgun. Hann sagðist jafnframt efast um að ríkisstjórn Bandaríkjanna myndi „dæla peningum“ í flugiðnaðinn, eins og hann orðaði það og bætti því við að bandarískir skattgreiðendur myndu líklega ekki hafa bolmagn til að halda uppi bæði bílaiðnaði og flugiðnaði til viðbótar við fjármálakerfið og vísaði þar til mikilla ríkisútgjalda bandarískra yfirvalda til að koma fyrirtækjum til aðstoðar í þeirri fjármálakrísu sem nú ríkir á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

Branson sagði að í það minnsta tvö stór bandarísk flugfélög væru nánast við það að verða gjaldþrota en hann vildi ekki upplýsa um hvaða flugfélög hann væri að tala.

Hagnaður Virgin Atlantic nær tvöfaldaðist milli ára á síðasta ári en félagið er líklega eina flugfélagið sem sýndi svo mikinn hagnað milli ára á þessu erfiða ári.

Rétt er að geta þess að á síðustu 18 mánuðum hafa 25 flugfélög orðið gjaldþrota í heiminum.