Viðskipti með bréf í Icelandair Group námu 1131 milljón króna og hækkaði verð bréfa um 0,26% í dag. Þetta er óvenjulega mikil velta með bréf félagsins, þótt venjulegast sé veltan á hlutabréfamarkaðnum mest með bréf Icelandair.Gengi bréfa í Icelandair stendur nú í 19,3 á hlut og hefur ekki verið hærra síðan á haustmánuðum 2008.

170 milljóna króna velta var með bréf N1 og lækkaði gengi bréfa um 1,32%. Þá var 136 milljóna króna velta með bréf TM og lækkaði gengið um 0,47%. Velta með bréf í öðrum félögum var mun minni. Gengi bréfa í öllum skráðum félögum lækkaði nema Icelandair, eins og fyrr segir og Regin. Gengi bréfa í Regin hækkaði um 0,32%.

Hugsanlegt er að þessi mikla velta með bréf Icelandair skýrist, að minnsta kosti að einhverju leyti, á jákvæðum flutningatölum. Eins og VB.is greindi frá í morgun var brotið blað í sögu Icelandair á síðasta ári þegar farþegar í millilandaflugi voru 2.257.305 talsins. Það er 12% fleiri en árið 2012 og hafa þeir aldrei verið fleiri.