Úrvalsvísitalan hefur tekið við sér síðustu þrjá daga eftir að hafa verið lítið breytt í nærri tvær vikur. Yfir síðustu þrjá daga nemur hækkunin samtals 2,8%. Gildi vísitölunnar er nú um 11,6% lægra en þegar það fór hæst, 8 október. Horft yfir síðustu vikur var lægsta gildi vísitölunnar 2. nóvember og er vísitalan í dag um 8,5% hærri en þá. Síðustu daga hefur veltan á hlutabréfamarkaði verið með minna móti og áberandi minni en í lækkunarhrinunni í október.

"Hlutafjárútboð hafa dregið til sín athygli fjárfesta. Í gær kláraði SÍF hlutafjárútboð sitt en 4,8 ma.kr. seldust í útboðinu sjálfu og stórir hluthafar höfðu áður skuldbindið sig fyrir 15,4 mö.kr. Á mánudaginn í síðustu viku seldi Íslandbanki nýtt hlutafé fyrir 10,65 ma.kr. Innan tíðar er búist við hlutafjárútboði Bakkavarar, verði yfirtaka á Geest reynd, og gæti það numið nálægt 17 mö.kr.," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.