Í samanburði við önnur ríki Evrópska efnahagssvæðisins (EES) var verðbólgan hér á landi sú þriðja mesta í september. Er það þriðji mánuðurinn í röð þar sem Ísland trónir ekki á toppi listans, að því er segir í morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Mældist verðbólgan mest hérlendis allt frá því í ágúst 2008.

„Í september síðastliðnum mældist verðbólgan mest í Rúmeníu, 7,7%, og næstmest á Grikklandi, 5,7%. Verðbólgan eykst nokkuð milli ágúst og september innan ríkja EES, eða úr 2,0% í 2,2%. Aðeins Írland upplifði ástand verðhjöðnunar í september en þar hefur samræmd vísitala lækkað um 1,0% á síðustu tólf mánuðum.

Ekki er við öðru að búast en að munurinn á Íslandi og öðrum EES-löndum haldi áfram að fara minnkandi næsta kastið,“ segir í morgunkorninu.

„Verðbólgan hér á landi var 5,1% í september samkvæmt samræmdri vísitölu neysluverðs sem Hagstofa Evrópusambandsins (e. Eurostat) tekur saman og Hagstofa Íslands birti nú í morgun. Minnkar því verðbólgan um 0,8 prósentustig milli mánaða en hún var 5,9% hér á landi í ágúst samkvæmt vísitölunni. Á þennan mælikvarða hefur verðbólgan hjaðnað umtalsvert síðasta árið en í september í fyrra mældist hún 15,3%.“