Upplýsingatækniiðnaðurinn (UT-iðnaðurinn) hefur lengi stefnt að því að vera þriðja stoðin í efnahagslífi Íslendinga, á eftir sjávarútvegi og fjármálaþjónustu.

Bæði sjávarútvegur og fjármálaþjónusta hafa gengið í gegnum erfiðleika undanfarið en minna hefur farið fyrir umræðu um stöðu UT-iðnaðarins á Íslandi. Skýrslutæknifélag Íslands (Ský) stóð fyrir ráðstefnu fyrir skömmu síðan á Grand Hóteli Reykjavík um stöðu upplýsingatækniiðnaðar á Íslandi undir yfirskriftinni ,,Forskotið farið?”.

Laufey Ása Bjarnadóttir var einn skipuleggjenda ráðstefnunnar og ráðstefnustjóri. Hún segir stöðu UT-iðnaðar á Íslandi almennt vera góða og bjartsýni ríkja.

,,Ísland stóð mjög vel að vígi við upphaf netbólunnar. Við eigum vel menntað starfsfólk og íslenski markaðurinn er frábær sem prufumarkaður fyrir ýmsar afurðir. Þegar netbólan sprakk 2001 fór tiltrú manna á greininni hins vegar minnkandi, sérstaklega fjárfesta,” segir Laufey.

Hún segir íslendinga standa frammi fyrir mikilli samkeppni frá löndum eins og Indlandi og Kína. Þar sé gríðarleg uppbygging í upplýsingatækniiðnaði og mikill fjöldi útskrifast úr háskólum þar árlega með menntun á þessu sviði.

,,Hér á landi horfum við hins vegar upp á mikinn skort á vel menntuðu fólki á þessu sviði, svo mikinn skort reyndar að við þurfum að flytja inn fólk erlendis frá, sérstaklega í sérhæfð verkefni.”

_____________________________________

Nánar er fjallað um stöðu UT-iðnaðar á Ísland í viðtali við Laufeyju Ásu Bjarnadóttur, einn skipuleggjanda ráðstefnunnar og ráðstefnustjóra, í sérblaði um iðnað og atvinnulíf í Viðskiptablaðinu í dag..

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .