Ríkasti einstaklingur Asíu, viðskiptajöfurinn Li Ka-shing, er í viðræðum um kaup á breska fjarskiptafyrirtækinu O2, en fyrirtækið er annað stærsta sinnar tegundar í Bretlandi með tæplega 30% markaðshlutdeild.

Samkvæmt frétt BBC um málið nemur kaupverðið 10,25 milljörðum punda, sem jafngildir 2.078 milljörðum íslenskra króna. Núverandi eigandi O2 er spænska fyrirtækið Telefonica.

Fyrirtæki í eigu Li Ka-shing á nú þegar fjarskiptafyrirtækið Three, sem er með um 12% markaðshlutdeild í Bretlandi. Ef kaupin á O2 ganga í gegn yrði því sameinað fyrirtæki það lang stærsta sinnar tegundar í Bretlandi. Auk O2 og Three eru fyrirtækin EE og Vodafone stórir aðilar á breska fjarskiptamarkaðnum.

Ekki er ólíklegt að það hefði talsverð áhrif á breska neytendur ef stórum fjarskiptafyrirtækjum myndi fækka um eitt. Af þeim sökum munu samkeppnisyfirvöld Evrópusambandsins þurfa að samþykkja kaupin og það er alls óvíst hver niðurstaðan í því máli verður.