Umboðsmaður barna og talsmaður neytenda birta nú til umsagnar næstu þrjár vikur lokadrög leiðbeininga um aukna neytendavernd barna sem unnið hefur verið að í víðtæku samráði við hagsmunaaðila í nær þrjú ár.

Stefnt er að útgáfu 1. janúar nk. eftir að frestur almennings til athugasemda er liðinn.

Þetta kemur fram á vef Talsmanns neytenda .

Hér eru dæmi um leiðbeiningar:

Dæmi 1:  Fjölskylduvænar dagvöruverslanir

Í dagvöruverslunum skal leitast við að ekkert sælgæti, flögur, gos eða þvíumlíkt sé nærri kassa og a.m.k. sé tryggt að einn kassi sé laus við slíkar vörur í verslunum þar sem eru fleiri en tveir kassar.

Auk þess er mælst til þess að auðvelt sé fyrir fólk með börn að ganga um dagvöruverslun en sneiða hjá matvælum, sem höfða sérstaklega til barna og hafa hátt innihald sykurs, salts, fitu eða transfitu – einkum ef þau eru í sjónhæð barna.

Dæmi 2: Markpóstur

Markaðssetning á vöru eða þjónustu gagnvart börnum undir framhaldsskólaaldri – einnig í fyrirliggjandi viðskiptasambandi – skal ávallt fara í gegnum þann sem fer með forsjá barns.

Óumbeðinn markpóstur frá fyrirtækjum á ekki að beinast að börnum undir framhaldsskólaaldri jafnvel þó að fyrir liggi viðskiptasamband milli fyrirtækis og barns.

Dæmi 3: Heilbrigði

Markaðssókn, sem beinist að börnum, á að leitast við að miðla heilbrigðri líkamsmynd og mannvirðingu og forðast óheilbrigðar staðalmyndir.

Sjá nánar á vef Talsmanns neytenda .