Bandarísk yfirvöld tóku seint í gær yfir þrjá banka og tvö önnur lánafyrirtæki. Með yfirtöku á bönkunum þremur hafa 20 bankar fallið í Bandaríkjunum það sem af er ári, að því er segir í frétt MarketWatch.

Bankarnir þrír sem teknir voru í gær voru allir tiltölulega litlir. Hin lánafyrirtækin tvö eru meðal þeirra stærri á sínu sviði, en þau eiga ekki bein viðskipti við almenning heldur verslanir og önnur fyrirtæki.

Fjármálafyrirtæki leiddu lækkanir á Bandaríkjamarkaði í gær eftir hækkanir síðustu daga. WSJ segir að sumir miðlarar telji ástæður hækkunarlotunnar hafa verið að skortsalar hafa verið að kaupa aftur hlutabréf sem þeir hafi fengið lánuð.