Bandaríska ríkið hefur tekið yfir fimm banka til viðbótar þar í landi með eignir upp á samtals rúman 1 milljarð dala. Með þessum fimm bönkum hefur bandaríska ríkið tekið yfir 45 banka á þessu ári, að því er segir í frétt Bloomberg. Það er innistæðutryggingasjóðurinn, FDIC, sem sér um yfirtöku bankanna þegar talið er að þeir geti ekki staðið á eigin fótum.

Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa ekki tekið yfir jafn marga banka á einu ári frá því árið 1993. Sex milljónir starfa hafa tapast í landinu frá því niðursveiflan hófst í desember árið 2007.