Á árunum 2007 til 2013 greiddi hið opinbera, ríki og sveitarfélög, samtals 30,4 milljarða til upplýsingatæknifyrirtækja. Þetta kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Helga Hrafns Gunnarssonar, þingflokksformanns Pírata. Ekki kemur fram hvort tölurnar sem þar séu settar fram séu á verðlagi hvers árs eða núvirtar.

Í fyrirspurn Helga er meðal annars óskað eftir upplýsingum um hvaða viðskipti hafi átt sér stað á milli hins opinbera annars vegar og upplýsingatæknifyrirtækja hinsvegar án þess að þau hafi farið í gegnum útboðsferli. Í svari ráðherra segir:

„Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur ekki tök á að greina út frá fyrirliggjandi fjárhagsupplýsingum hvaða viðskipti við upplýsingatæknifyrirtæki fóru í útboðsferli á árunum 2007–2013. Þá liggur ekki fyrir í hvaða viðskiptum heildargreiðslur fóru umfram viðmiðunarfjárhæðir á hverjum tíma. Ástæða þess er að innkaup ríkisins sem byggð eru á útboðum eða rammasamningum eru ekki sérmerkt í fjárhagskerfi ríkisins. Hins vegar fara fram útboð á sviði upplýsingatæknimála reglulega og samningar sem gerðir eru á grundvelli þeirra geta náð yfir fjölda ára. Einnig eru í gildi rammasamningar á sviði upplýsingatæknimála og samkvæmt upplýsingum frá Ríkiskaupum var velta þessara samninga á árinu 2013 um 1,6 milljarðar kr.“

Stærsti einstaki kaupandi þjónustu á vegum hins opinbera er Fjársýsla ríkisins, en hún greiddi um 808 milljónir króna á seinasta ári fyrir þjónustu upplýsingatæknifyrirtækja.