Eigendur MP banka, einkum Skúli Mogensen, áttu frumkvæðið að þeim viðræðum sem hafnar eru milli Framtakssjóðs Íslands og annarra fjárfesta við slitastjórn Glitnis um kaup á Íslandsbanka eða hlut í honum. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er ekki langt síðan Framtakssjóðurinn tók ákvörðun um að hefja viðræður, en þær munu ekki vera langt komnar.

Íslenska ríkið á um 5% hlut í Íslandsbanka og í hluthafasamningi milli Glitnis, Fjármálaráðuneytisins og Íslandsbanka segir að ef aðrir hluthafar en ríkið selja meira en 33,2% hlut í Íslandsbanka þá geti hluthafarnir krafist þess að ríkið samþykki tilboð frá kaupandanum á sömu kjörum og skilmálum. Þá hefur ríkið einnig rétt á því að ganga inn í slíka sölu, þ.e. að krefjast þess að fyrirhugaður kaupandi geri ríkinu skriflegt tilboð um að kaupa öll almenn hlutabréf á sömu kjörum og skilmálum og öðrum seljendum hlutabréfanna standa til boða.

Í morgun var greint frá því að hópur fjárfesta, sem m.a. inniheldur Skúla Mogensen, stærsta eiganda MP banka, hefðu áhuga á að kaupa Íslandsbanka af slitastjórn Glitnis.