Landsréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að sýkna íslenska ríkið af kröfu Ólafs Björnssonar, eiganda Dalsness, um endurgreiðslu á rúmlega 64 milljónum króna sem hann hafði greitt í viðbótarauðlegðarskatt. Ólafur taldi að röng leiðsögn skattayfirvalda hefði leitt til álagningar skattsins.

Málið teygir anga sína allt til tekjuársins 2012 en gjaldárið 2013 skilaði Dalsnes inn skattframtali til Ríkisskattstjóra (RSK) líkt og lög kváðu á um. Í því var grein gerð fyrir eignarhlutum þess í öðrum félögum og leiðbeiningum RSK fylgt við þann gjörning. Þær fjárhæðir eru meðal þeirra þátta sem mynda bókfært virði félagsins sjálfs sem síðan hafði áhrif á álagningu auðlegðarskatts eigandans.

Að mati RSK átti við þennan gjörnin að nota sömu aðferð fyrir innlend og erlend félög, það er að tilgreina bókfærð verð eignarhluta og draga frá nafnverð hlutabréfa til leiðréttingar og fá þannig út virði félagsins. Sú túlkun kom fram árið 2015 en í leiðbeiningum fyrir framtalsgerð gjaldársins 2013 var önnur aðferð lögð til grundvallar. Þeirri aðferð hafði Dalsnes ehf. beitt hvað varðar dótturfélagið Dalsnes A/S en breyting RSK þýddi að skattalegt eigið fé Dalsness ehf. hækkaði um rúmlega 4,2 milljarða króna. Sú breyting hafði engin skattaleg áhrif á Dalsnes ehf. en þýddi aftur á móti að viðbótarauðlegðarskattur Ólafs hækkaði.

Við breytingu á framtali félags síns gat Ólafur ekki komið vörnum við fyrir yfirskattanefnd né dómstólum enda var ekki litið svo á að hann ætti aðild að málinu. Þá gat félagið ekki gert neinar kröfur enda hafði álagningin á það ekkert breyst. Þegar opinber gjöld Ólafs voru endurákvörðuð byggði hann hins vegar á því að slíkt væri ekki heimilt. Öllum upplýsingum hefði verið skilað og í samræmi við leiðbeiningar RSK. Því ætti sex ára frestur til endurákvörðunar ekki við heldur tveggja ára regla tekjuskattslaganna.

Þessu hafnaði héraðsdómur og hið sama gerði Landsréttur í dag með því að staðfesta fyrri dóminn með vísan til forsendna hans. Páll Rúnar M. Kristjánsson, lögmaður Ólafs, segir í samtali við Viðskiptablaðið að farið verði fram á áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar.