Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) samþykkti í dag ríkisaðstoð vegna endurreisnar Sparisjóðs Norðfjarðar og Sparisjóðs Vestmannaeyja. Aðstoðin var veitt og samþykkt tímabundið í júní 2010 og apríl 2011 sem hluti af aðstoðaráætlun til björgunar fimm smærri sparisjóða.

Á meðal aðgerðanna sem ESA telur upp og falla undir ríkisaðstoð við sparisjóðina almennt eru uppgjör krafna Seðlabankans á hendur þeim, sem hafa ýmist verið afskrifaðar eða þeim breytt í hlutafé, víkjandi lán og almenn lán. Þá hefur Seðlabankinn ábyrgst innlán sparisjóðanna í Sparisjóðabankanum (Icebank) og yfirlýsing íslenska ríkisins um að gangast í ábyrgð fyrir innlánum í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum. Auk þessa hefur verið ráðist í almenna fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðanna, sem felur m.a. í sér að gerðir hafa verið samningar við aðra lánveitendur, stofnfé fyrri eigenda hefur verið fært niður og nýir fjárfestar hafa lagt til aukið stofnfé.

ESA segir ráðstafanirnar líklegar til að tryggja rekstrarhæfi sparisjóðanna tveggja til framtíðar og geti þeir uppfyllt kröfur Fjármálaeftirlitsins um lágmarkshlutfall eigin fjár. Einnig hafi ESA litið til þess að sparisjóðirnir og stofnfjáreigendur þeirra hafa lagt fram hæfilegt framlag til endurskipulagningarinnar.

„Í ljósi takmarkaðrar samkeppnisröskunar vegna ráðstafananna og lítilla áhrifa þeirra á viðskipti milli aðildarríkja EES-samningsins, hefur ESA ákveðið að samþykkja endurreisnaráætlanir sparisjóðanna þrátt fyrir að þær feli ekki í sér nein sérstök úrræði til að draga úr röskun á samkeppni,“ segir í umfjöllun ESA.