Stjórnsýslusvið Ríkisendurskoðunar hefur birt starfsáætlun sína fyrir árin 2016-2018. Samkæmt áætluninni munu úttektir stjórnsýslusviðs einkum beinast að málaflokkum sem heyra undir fjögur stærstu ráðuneytin. Meðal fyrirhugaðra verkefna á næsta ári eru úttektir á geðheilbrigðismálum barna og unglinga og á Fjársýslu ríkisins.

Þá er úttekt á Sérstökum saksóknara á meðal þeirra verkefna sem fyrirhuguð eru á næsta ári. Einnig eru fyrirhugaðar úttektir á meðferð heimilisúrgangs, flutningi ríkisstarfsemi, samningum um sjúkrahótel og á Vegagerðinni, svo stiklað sé á stóru. Endanleg ákvörðun um úttekt fer að jafnaði fram að lokinni forkönnun Ríkisendurskoðunar.

Stjórnsýsluendurskoðun miðar að því að kanna meðferð og nýtingu almannafjár, hvort hagkvæmni og skilvirkni er gætt í rekstri stofnana og fyrirtækja ríksins. Jafnframt er kannað hvort viðkomandi starfsemi sé í samræmi við lög og reglur og skili þeim árangri sem að er stefnt, að því er segir á vef Ríkisendurskoðunar .

Ástæða þess að Ríkisendurskoðun hyggst einkum leggja áherslu á fjögur stærstu ráðuneytin er sögð vera sú að langstærstur hluti ríkisútgjalda, eða um 80%, sé vegna þessara fjögurra ráðuneyta. Um er að ræða velferðarráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið og innanríkisráðuneytið. Málefni annarra ráðuneyta verða þó einnig til skoðunar eftir því sem þörf þykir.