Ríkiskaup hafa gert þrjá rammasamninga við Húsasmiðjuna sem varða kaup á byggingavörum, heimilistækjum og ljósaperum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Húsasmiðjunni.

Þar kemur fram að samningarnir, sem hafa nýverið tekið gildi, voru gerðir í kjölfar útboðs sem auglýst var á Evrópska efnahagssvæðinu.

Þá kemur fram að Húsasmiðjan er eina fyrirtækið sem Ríkiskaup semja við um byggingavörur, en sá samningur nær m.a. til timburs, platna, festinga, málningar, þéttiefna, múrefna, gólfefna, raflagna, pípulagna og verkfæra.

Einnig segir í tilkynningunni að þetta er í fyrsta sinn sem Ríkiskaup semja við einungis eitt fyrirtæki í þessum útboðsflokki. Það þýðir að öllum opinberum stofnunum og fyrirtækjum sem eru aðilar að rammasamningum Ríkiskaupa er skylt að kaupa byggingavörur af Húsasmiðjunni.

Samningarnir tryggja opinberum stofnunum og sveitarfélögum sem eru aðilar að rammasamningum Ríkiskaupa hagkvæm kjör við kaup á þeim vörum sem samningarnir ná til. Alls eru um 600 stofnanir og sveitarfélög um allt land aðilar að samningunum.

„Það er afar ánægjulegt að Húsasmiðjan hafi verið valin til samstarfs við Ríkiskaup í þessum þremur flokkum,“ segir Ólafur Þór Júlíusson, framkvæmdastjóri heildsölusviðs Húsasmiðjunnar í tilkynningunni.

„Við höfum átt gott samstarf við Ríkiskaup í gegnum tíðina og kappkostað að veita opinberum stofnunum og sveitarfélögum hagstæð kjör og góða þjónustu. Rammasamningarnir þrír tryggja að þessir aðilar munu geta nýtt sér þéttriðið net verslana Húsasmiðjunnar sem eru á 19 stöðum um allt land og fengið þar hagstæðustu kjör sem völ er á samkvæmt samningunum..“