Sú breyting verður gerð á skipan löggæslumála í Noregi að ríkislögreglustjóra verður falin ábyrgð á því að ráða aðra lögreglustjóra í umdæmum lögreglunnar í Noregi. Norski dómsmálaráðherrann tilkynnti um þetta í nýliðinni viku. Hingað til hefur það verið ríkisráðs að taka ákvörðun um ráðningu lögreglustjóra eftir tilnefningu dómsmálaráðherra.

Sigve Bolstad, formaður Landssambands norskra lögreglumanna, fagnaði breytingunni þegar blaðamaður Viðskiptablaðsins ræddi við hann á skrifstofu hans í Osló síðastliðinn miðvikudag. Hann sagði að Landssamband norskra lögreglumanna hefði kallað eftir þessari breytingu um áratugaskeið.

„Ríkislögreglustjóri þekkir lögregluliðið sitt best,“ sagði Bolstad í samtali við Viðskiptablaðið og klappaði höndum til þess að leggja áherslu á hversu ánægður hann væri með fyrirhugaðar breytingar.

Hér á íslandi er fyrirkomulagið við skipan lögreglustjóra þannig að innanríkisráðherra skipar lögreglustjórana og aðstoðarlögreglustjóra. Samkvæmt upplýsingum frá Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra hefur ekki komið til tals að breyta því fyrirkomulagi.

„Samkvæmt gildandi lögreglulögum nr. 90/1996 er innanríkisráðherra æðsti yfirmaður lögreglunnar í landinu. Ríkislögreglustjóri fer með málefni lögreglunnar í umboði hans. Ráðherra skipar ríkislögreglustjóra, aðstoðarríkislögreglustjóra, lögreglustjóra og aðstoðarlögreglustjóra. Ekki hafa verið uppi hugmyndir um breytingu á þessari skipan mála hér á landi,“ segir í skriflegu svari ríkislögreglustjóra við fyrirspurn Viðskiptablaðsins.