Ríkisráð Íslands hefur verið kvatt saman á Bessastöðum nú á föstudag og segir Bolli Þór Bollason ráðuneytisstjóri að um hefðbundinn fund sé að ræða. Þar eigi að endurstaðfesta lög sem samþykkt hafa verið á Alþingi.

„Yfirleitt eru haldnir tveir ríkisráðsfundir á ári," segir hann.

Annar þeirra sé haldinn á gamlársdag en hinn sé haldinn að loknu vorþingi. Í ljósi þess að vorþingið hafi ekki klárast fyrr en í síðustu viku, vegna breyttra þingskapa, sé ríkisráðsfundurinn haldinn nú.

Ráðherrarnir allir skipa ríkisráð og forseti Íslands stýrir fundum þess.