Ríkisskattstjóra er gert að endurgreiða Baugi Group hf. 75 m. kr. vegna oftekinna opinberra gjalda. Ofan á þá endurgreiðslu bætist oftekið álag sem ríkisskattstjóra er gert að endurreikna og endurgreiða félaginu

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Baugi Group.

Þar segir að „á meðan lögreglurannsókn fór fram í svokölluðu „Baugsmáli" hafi ríkislögreglustjóri vísað ákveðnum þáttum, sem vörðuðu skattamál félagsins, til embættis skattrannsóknarstjóra ríkisins með sérstöku bréfi dagsettu 17. september 2003. Í framhaldi af þeirri tilkynningu hóf skattrannsóknarstjóri formlega rannsókn á bókhaldi og skattskilum félagsins með húsleit á starfsstöð félagsins 17. nóvember 2003. Skattrannsóknin tók til tekjuáranna 1998-2002.“   Frumskýrsla skattrannsóknarstjóra var afhent forsvarsmönnum félagsins 4. júní 2004. Eftir andmæli félagsins skilaði skattrannsóknarstjóri endurskoðaðri niðurstöðu sinni til ríkisskattstjóra sem aftur úrskurðaði um endurákvörðun opinberra gjalda félagsins vegna ofangreindra tekjuára hinn 30. desember 2004.

Skattrannsóknin tók til 8 tilvika að því er segir í tilkynningu Baugs:

Í fyrsta lagi voru starfstengdar greiðslur til nokkurra yfirmanna félagsins 1998-2002 samtals að fjárhæð rúmlega 200 m. kr. þar sem ekki hefði verið haldið eftir staðgreiðslu

Í öðru lagi hefðu verið gefnir út reikningar af félaginu á hendur Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf. þar sem virðisaukaskattur hefði ekki verið tilgreindur. Reikningar á árinu 1999 hefðu verið samtals að fjárhæð rúmar 13 milljónir króna en samtals um 70 milljónir á árinu 2000. Ríkisskattstjóri úrskurðaði að ekki hefði verið um virðisaukaskattskylda þjónustu að ræða.

Í þriðja lagi voru greiðslur til tveggja manna er félagið hefði talið verktaka en ekki launþega. Hefði annar þeirra fengið samtals u.þ.b. 19 milljónir. á árunum 1999-2002 en hinn samtals u.þ.b. 10 milljónir á árunum 1998-1999.

Í fjórða lagi var um að ræða reikning að fjárhæð u.þ.b. 300 þúsund krónur sem félagið greiddi en talinn var tilhæfulaus.

Í fimmta lagi var um að ræða meintan vanframtalinn söluhagnað hlutabréfa á árinu 1998 vegna tilurðar Baugs hf. með sameiningu nokkurra félaga, aðallega Hagkaup og Bónus. Var þessi vanframtaldi söluhagnaður talinn nema a.m.k. 407 milljónir en væri „að öllum líkindum" u.þ.b. 1,5 milljarðar króna.

Í sjötta lagi var um að ræða meintan vanframtalinn söluhagnaður vegna Klukkubúða hf. (verslanir 10/11) frá árinu 1998 u.þ.b. 1,1 milljarður króna en Klukkubúðir sameinuðust Baugi 1. janúar árið 2000. Ríkisskattstjóri komst að þeirri niðurstöðu að þetta atriði gæfi ekki tilefni til endurákvörðunar opinberra gjalda félagsins.

Í sjöunda lagi var um að ræða kaup á tilgreindu fyrirtæki en þetta rannsóknartilvik gaf ekki tilefni til endurákvörðunar skv. úrskurði ríkisskattstjóra.

Í áttunda og síðasta lagi var um að ræða vanframtalinn söluhagnað vegna sölu eigin bréfa félagsins sem höfðu verið vistuð hjá Kaupþingi í Lúxemborg. Ríkisskattstjóri úrskurðaði að þetta tilvik gæfi ekki tilefni til endurákvörðunar opinberra gjalda félagsins.

Málinu ekki lokið

Baugur Group fékk afhenta endurálagningu ríkisskattstjóra vegna tekjuáranna 1998-2002 á gamlársdag 2004. Segir félagið, að endurálagningin samkvæmt því skjali var sögð nema samtals u.þ.b. 464 milljónum. Síðar hafi komið í ljós, að meintur vangreiddur tekjuskattur hafði verið ofreiknaður og skattskuld Baugs í innheimtukerfi skattyfirvalda reynst vera u.þ.b. 142 milljónir í árslok 2004 vegna endurálagningarinnar.

Baugur greiddi þá fjárhæð hinn 28. janúar 2005 með fyrirvara um réttmæti endurákvörðunarinnar, en félagið skaut ágreiningi um það efni til yfirskattanefndar með kæru dags. 23. mars 2005. Ágreiningurinn laut að fyrsta, þriðja og fimmta rannsóknartilviki skattrannsóknarinnar. Ekki var talin ástæða til að fjalla um fjórða tilvikið vegna þess um hve óverulega hagsmuni þar var að ræða, að því er segir í tilkynningu.

„Fallist er á það með félaginu að stærstur hluti þessara greiðslna hefði ekki verið staðgreiðsluskyldur fyrr en með gildistöku reglugerðar nr. 500/2001, um breytingu á reglugerð nr. 591/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu með síðari breytingum, hinn 1. júlí 2001. Um var að ræða u.þ.b. 194 m. kr. Samkvæmt niðurstöðu yfirskattanefndar lækkar vangreidd staðgreiðsla félagsins um 75 m. kr. frá endurálagningu ríkisskattstjóra.

Að teknu tilliti til álags sem félaginu var gert að greiða ber ríkisskattstjóra að endurgreiða nokkuð hærri fjárhæð þar sem álagi skv. endurálagningunni var vísað til ríkisskattstjóra til endurreiknings vegna greindrar lækkunar á vangreiddri staðgreiðslu. Þessi fjárhæð dregst þá frá þeim 142. m. kr. sem fyrirtækinu var gert að greiða í kjölfar skattrannsóknarinnar 25. janúar 2005. Þá er ríkisskattstjóra gert að greiða Baugi Group hf. 300 þús. kr. í málskostnað þar sem úrslit málsins þykja hafa gengið „kæranda í hag að hluta til" líkt og segir orðrétt í úrskurði yfirskattanefndar.

Ekki var fallist á sjónarmið félagsins að því er varðar rannsóknartilvik þrjú og fimm. Félagið íhugar að leita réttar síns fyrir dómstólum að því er varðar endurálagningu vegna vanframtalins söluhagnaðar á árinu 1998 vegna sameiningar Hagkaupa og Bónuss,“ segir í tilkynningu Baugs.