Ríkisstjórnin nýtur 30% stuðnings þjóðarinnar en hafði stuðning 40% aðspurðra fyrir mánuði síðan. Greint var frá niðurstöðum nýrrar könnunar Gallup í kvöldfréttum Rúv.

Samkvæmt könnuninni tapa báðir ríkisstjórnarflokkarnir miklu fylgi og sögðust 18% aðspurðra styðja hvorn flokkinn fyrir sig. Frá síðustu kosningum hefur fylgi Vinstri grænna minnkað um 2% en fylgi Samfylkingarinnar um 12%. Hjá Samfylkingu hefur fylgi ekki mælst minna frá því í nóvember 2001, að því er segir í frétt Rúv.

Hreyfingin nýtur stuðnings 8% kjósenda samkvæmt könnuninni og hefur tvöfaldað fylgi sitt frá síðasta mánuði. 36% studdu Sjálfstæðisflokkinn og 12% Framsóknarflokkinn. Fylgi þeirra breyttist lítið frá fyrri könnun.

Könnunin var gerð dagana 30. september til 27. október. Úrtakið nam tæplega 4600 manns, tveir af hverjum þremur aðspurðra svöruðu.