Nær 7 af hverjum 10 forsvarsmanna þeirra fyrirtækja sem þátt tóku í nýlegri könnun Viðskiptaráðs telja ríkisstjórnina helst standa efnahagslegri endurreisn Íslands fyrir þrifum. Þá telja um 20% þeirra að of háir skattar séu helsta vandamálið. Þetta kemur fram í aðsendri grein Finns Oddssonar, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs, í Fréttablaðinu í dag. Þar kemur jafnframt fram að gjaldeyrishöft og ótrúverðugur gjaldmiðill, vinnubrögð fjármálastofnana og seinagangur við skuldaaðlögun og almenn viðhorf frá hruni sem einkennst hafa af svartsýni og öfund skori hátt sem helstu ljón í vegi endurreisnarinnar.

„Þessi atriði blikna hins vegar í samanburði við þá gagnrýni sem hér er beint að stjórnvöldum, en svör um það bil níu af hverjum tíu aðspurða endurspegla þá skoðun að stjórnvöld og stefna þeirra hamli viðreisn hagkerfisins. Slíkar niðurstöður hljóta að verða þeim sem nú halda um stjórnartaumana alvarlegt umhugsunarefni,“ segir í grein Finns.

Þegar spurt er hvaða þættir það eru sem valda erfiðleikum í rekstri fyrirtækja nefna flestir, meira en helmingur, svarenda orðspor atvinnulífsins sem beðið hefur töluverðan hnekki í kjölfar hrunsins. Samdráttur, veikt gengi og erfitt aðgengi að fjármagni eru einnig nefnd sem mikilvægir þættir. „Það er á valdi forsvarsmanna viðskiptalífsins að bæta orðsporið, en það gerist eingöngu með því að fylgja eftir af aga góðum stjórnarháttum og að samfélagsleg ábyrgð sé höfð að leiðarljósi í rekstri fyrirtækja. Þetta er staðreynd sem forsvarsmenn í íslenskum fyrirtækjarekstri verða að taka alvarlega. Jafnframt þurfa samskipti atvinnulífs við stjórnvöld að einkennast af málefnalegum skoðanaskiptum og ábyrgð,“ segir Finnur.