Ríkisstjórnin hefur afgreitt þingsályktunartillögu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra sem kveður á um að byggð verði viðbygging við Alþingishúsið. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu .

Þar er greint frá því að þingsályktunin sé lögð fram sem tillaga um hvernig minnast skuli aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands árið 2018. Gert er ráð fyrir að haldin verði samkeppni um hönnun hússins og tengibygginga.

Í þingsályktunartillögu Sigmundar er einnig lagt til að lokið verði við byggingu yfir Stofnun Árna Magnússonar og byggingu nýrrar Valhallar á Þingvöllum, en húsið brann árið 2009.