Í mars eru ríkisvíxlar að fjárhæð 20 milljarðar króna á gjalddaga og þar af höfðu erlendir aðilar upphaflega keypt 16,7 milljarða af þeim víxlum samkvæmt morgunkorni Íslandsbanka. Jafnframt er ríkisbréfaflokkurinn RIKB 10  á gjalddaga 17. mars -  eftir rétt rúma viku. Sá flokkur er að langmestu leyti í eigu erlendra aðila samkvæmt greiningu Íslandsbanka. „Þannig áttu erlendir fjárfestar um síðustu áramót ríflega 72 milljarða króna af þeim 84 milljörðum sem útistandandi eru í flokknum."

Vegna þess hve há fjárhæð er á gjalddaga í þessum mánuði á Greining Íslandsbanka von á töluverðum áhuga á útboði ríkisvíxla sem fer fram á fimmtudaginn og að erlendir aðilar verði þar atkvæðamiklir líkt og í undanförnum víxlaútboðum. Í boði verða víxlar með gjalddaga 15. júlí 2010 og ræður hæsta samþykkta ávöxtunarkrafa kröfunni í öllum teknum tilboðum líkt og verið hefur undanfarna mánuði. Reinað er með að þeir útlendingar sem eigi ríkisbréf á gjalddaga kjósi frekar að kaupa víxla en að fjárfesta áfram í nýjum ríkisbréfum í útboði sem reikna má að Lánamál ríkisins standi fyrir á föstudaginn.

„Í ríkisvíxlaútboði febrúarmánaðar reyndist eftirspurn mikil og reyndist bæði fjárhæð heildartilboða og þeirra tilboða sem tekið var sú mesta síðan í útboði nóvembermánaðar," segir í morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.