Þegar Ólafur F. Magnússon tekur við embætti borgarstjóra á fimmtudag verða samtals þrír borgarfulltrúar á borgarstjóralaunum. Dagur B. Eggertsson fer þá á biðlaun en á þeim kjörum er nú þegar Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson.

Kjör borgarstjóra taka mið af launum forsætisráðherra sem ákveðin eru af kjararáði. Laun borgarstjóra eru með öðrum orðum um ein milljón og eitt hundrað og fimmtán þúsund krónur á mánuði.

Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu Ráðhúss Reykjavíkur á borgarstjóri rétt á biðlaunum í sex mánuði ef hann hefur setið í því embætti í eitt ár eða lengur. Hann á rétt á biðlaunum í þrjá mánuði ef hann hefur setið skemur en eitt ár.

Samkvæmt þessu átti Vilhjálmur rétt á biðlaunum í sex mánuði þegar hann vék úr borgarstjórastólnum í október síðastliðnum. Dagur á rétt á biðlaunum í þrjá mánuði.

Þess má geta að þegar borgarstjóri fer ekki úr borgarstjórn heldur verður aftur almennur borgarfulltrúi dragast borgarfulltrúalaunin frá borgarstjóralaununum. Hann fær því borgarfulltrúalaunin og síðan til viðbótar þá upphæð sem vantar upp á að hann nái borgarstjóralaununum.

Venjuleg borgarfulltrúalaun eru í kringum 450 þúsund krónur á mánuði.