Ríkislögmaður hefur fengið til liðs við sig prófessorana Björgu Thorarensen, Stefán Má Stefánsson og Viðar Má Matthíasson til meta áhættu og hugsanlegar bótakröfur vegna neyðarlaganna.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurnum umboðsmanns Alþingis.

Umboðsmaður Alþingis sendi forsætisráðuneytinu nýverið fjölmargar fyrirspurnir vegna neyðarlaganna sem Alþingi samþykkti í byrjun október. Umboðsmaður bendir þar m.a. á nauðsyn þess að ríkið afli sjálfstæðs lögfræðilegs mats á hugsanlegum bótakröfum í kjölfar neyðarlaganna.

Í svari ráðuneytisins segir að í kjölfar þessara ábendinga hafi ráðuneytið falið ríkislögmanni að veita ráðgjöf um lögfræðileg álitaefni er varða framkvæmd neyðarlaganna.

„Var hann sérstaklega beðinn um að benda á þau atriði sem ríkið og stofnanir þess þyrftu að hafa í huga til að lágmarka hættu á skaðabótaskyldu ríkisins," segir í svarinu.

„Ríkislögmaður hefur í þessu efni fengið til liðs við sig prófessorana Björgu Thorarensen, Stefán Má Stefánsson og Viðar Má Matthíasson. Þá hefur ríkislögmaður ásamt fræðimönnum haldið nokkra fundi með lögfræðilegum ráðgjöfum Fjármálaeftirlitsins til þess að ræða ýmis álitaefni sem uppi eru í starfi Fjármálaeftirlitsins og skilanefnda bankanna."