Annar risaborinn á virkjunarsvæðinu verður að líkindum tekinn í notkun í aðgöngum 2 við Axará fljótlega eftir mánaðarmót. Fyrsti risaborinn fór inn í aðgöng 3 í vetur og hefur borað um tvo kílómetra, þar af 229 metra í síðustu viku. Verið er að setja saman þriðja og síðasta borinn við aðgöng 1 á Teigsbjargi og sá ætti að verða klár til verka síðsumars. Borinn við aðgöng 2 rann á teinum inn í fjallið í síðustu viku, alveg inn að stafni og þar er nú unnið að undirbúningi sjálfrar borunarinnar.

Í frétt á heimasíðu Kárahnjúka kemur fram að áfram var haldið við Kárahnjúkastíflu, yfir 40 þúsund rúmmetrar af fyllingarefni bættust við í gljúfrið.

Í Fljótsdal var lokið við að styrkja berg í hvelfingum stöðvarhúss- og spennahella. Þá var hafist handa við að ljúka gerð komuganga að spennahellinum þvert í gegnum hann miðjan. Það verður svo sprengt 7 metra þykkt berglag til beggja enda til að fullgera hellinn. Spennahellirinn verður 105 metra langur, 13,5 metra breiður og lofthæðin allt að 17 metrar.

Starfsmenn Skanska raiseboring luku um helgina við fyrri fallgöngin í Valþjófsstaðarfjalli, yfir 400 metra löng, lóðrétt göng úr aðrennslisgöngum virkjunarinnar niður að stöðvarhússhellinum. Göngin eru yfir 4 metrar í þvermál. Bormenn flytja sig nú um set og búa sig undir að gera seinni göngin. Vinnan við fallgöngin gengur afar vel og er um þremur vikum á undan áætlun.