Ritstjórar DV, þeir Jónas Kristjánsson og Mikael Torfason, sögðu upp störfum í morgun. Björgvin Guðmundsson og Páll Baldvin Baldvinsson hafi verið ráðnir í þeirra stað, frá og með deginum í dag. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu

?DV hefur lent í ófriði í umræðum í þjóðfélaginu undanfarna daga. Nauðsynlegt er að skapa að nýju ró um blaðið og koma á vinnufriði hjá öllu því dugandi starfsfólki, sem unnið hefur á ýmsum sviðum þess. Til þess að svo megi verða höfum við sagt af okkur sem ritstjórar blaðsins frá og með deginum í dag" segir í sameiginlegri fréttatilkynningu frá fyrrverandi ritstjórum DV.

Björgvin hóf störf á Fréttablaðinu þegar það var stofnað vorið 2001. Í upphafi árs 2003 réði hann sig á ritstjórn Morgunblaðsins þar til hann snéri aftur og tók þátt í stofnun Markaðarins, fylgiblaðs Fréttablaðsins um viðskipti, í apríl 2005.

Björgvin var formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, í tvö ár og sat í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna.

Hann hefur stundað nám í hagfræði við Háskóla Íslands.

Páll Baldvin Baldvinsson hóf störf á DV í ágúst 2004 og hefur gegnt starfi menningarritstjóra blaðsins. Hann var innkaupastjóri Stöðvar 2 1987-199, dagskrárstjóri 1995-2001 og listrænn ráðunautur Leikfélags Reykjavíkur 1991-1995.

Páll Baldvin var ritstjóri Stúdentablaðsins 1975-1977 og hefur fjallað um menningarmál í fjölmiðlum frá 1970 á Tímanum, Þjóðviljanum og DV, RÚV, Stöð 2 og NFS.

Hann er menntaður í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og leikhúsfræði frá Goldsmith College í London.