Bandaríski kvikmyndaleikarinn Robert De Niro mun leika fjársvikarann Bernie Madoff í nýrri mynd sem framleidd er um það síðarnefnda á vegum HBO.

Bernie Madoff afplánar nú rúmlega 100 ára fangelsisdóm í Bandaríkjunum eftir að hafa svikið út milljarða Bandaríkjadali af viðskiptavinum sínum þegar hann starfaði sem verðbréfasali og fjárfestir. Madoff tók að sér að fjárfesta fyrir efnaða einstaklinga en úr varð ein stærsta svikamylla bandarískrar fjármálasögu sem þekkt var sem svokölluð Ponzi flétta.

De Niro er einnig á meðal framleiðanda myndarinnar eftir því sem fram kemur í frétt Hollywood Reporter. Handrit myndarinnar mun styðjast við annars vegar við bók Laurie Sandell, Truth and Consequences: Life Inside the Madoff Family, og hins vegar við bók Diane Henrique, The Wizard of Lies: Bernie Madoff and the Death of Trust. Báðar þessar bækur er metsölubækur vestanhafs. Handritshöfundur myndarinnar er John Burnham Schwartz.

Andrew Madoff, sonur Bernie Madoff, og fleiri fjölskyldumeðlimir aðstoðuðu Laurie Sandell við gerð bókar sinnar. Þá tók Andrew ásamt móður sinni, Ruth, þátt í því að kynna bókina opinberlega, meðal annars í fréttaskýringaþættinum 60 mínútur á CBS. Viðtalið var sýnt á Stöð 2 í gærkvöldi.

Robert De Niro mun leika fjársvikarann Bernie Madoff.
Robert De Niro mun leika fjársvikarann Bernie Madoff.
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Robert De Niro mun leika fjársvikarann Bernie Madoff.