Ron Paul tölvuleikur.
Ron Paul tölvuleikur.

Bandaríski frjálshyggjumaðurinn og erkifjandi Seðlabanka Bandaríkjanna Ron Paul verður aðalhetjan í nýjum tölvuleik, sem verið er að búa til núna. Leikurinn, sem ber heitið The Road to REVOLution, er klassískur hliðarskrunleikur á borð við Mario leikina frá Nintendo. Í leiknum ferðast Ron Paul um öll fimmtíu ríki Bandaríkjanna og safnar gulli (sem hann telur grundvöllinn fyrir traustum gjaldmiðli) og fulltrúum á landsþing Rebúblikanaflokksins. Þá mun hann berjast við stærri óvini og tengjast einhverjir þeirra Seðlabankanum. Ekki er þó gefið upp hvort þeir Paul og Ben Bernanke muni slást í lokaborði leiksins.

Leikurinn verður ókeypis og spilaður í vafra, en einnig er hugmynd um að gefa hann út fyrir snjallsíma eins og iPhone og Android síma. Fjármagn fá höfundarnir í gegnum fjöldafjármagnssíðuna Kickstarter , en hún gefur fólki tækifæri til að leggja til nokkra dollara í verkefni sem þeim þykja áhugaverð. Markmiðið um 5.000 dala fjármögnun hefur þegar náðst og þegar þetta er ritað hafa 8.400 dalir safnast til verksins.