Íslensk ríkisskuldabréf voru seld fyrir um milljarð króna fyrir hádegi í dag eftir að Bloomberg fréttaveitan sendi frá sér ranga frétt um niðurstöðu Icesave-málsins. Um klukkan hálf ellefu sendi Bloomberg frá sér nýja frétt um að Ísland hafi tapað málinu. Fréttin, sem var einungis stutt tilkynning um niðurstöðu málsins,  var leiðrétt skömmu síðar.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins áttu einhverjir fjárfestar í viðskiptum á upplýsingum sem Bloomberg veitti. Það var fréttaritari Bloomberg Í Lúxemborg sem sendi tilkynninguna. Fréttin um að Ísland hafi tapað málinu var með þeim allra fyrstu sem birtust um niðurstöðu málsins. Eins og kunnugt er vann Ísland málið.

Upphæð viðskiptanna nam um milljarði króna, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Seljendur keyptu skuldabréf á ný nær samstundis eftir að fréttin var leiðrétt.

Talsverð viðskipti hafa verið á skuldabréfamarkaði eftir að niðurstaða fékkst í Icesave-málinu. Krafa á skuldabréf íslenska ríkisins hefur lækkað. Þá hefur hlutabréfaverð farið hækkandi í Kauphöllinni í dag.