Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra kynnti fyrir skömmu niðurskurðartillögur í utanríkisráðuneytinu í ljósi efnahagsástandsins, en samkvæmt þeim mun niðurskurðurinn nemi um 2,3 milljörðum króna.

Þar munar mest um myndarlegan niðurskurð á framlögum til þróunarmála, en hann er liðlega 2/3 fyrirhugaðs sparnaðar.

Gangi tillögur þessar eftir í meðförum ríkisstjórnar og Alþingis verða útgjöld ráðuneytisins svipuð og þau voru samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2007.

Þróunaraðstoð nánast þurrkuð út

Mestu munar um að fyrri áform um stóraukna þróunaraðstoð eiga að ganga til baka og minnka útgjöldin um 1,6 milljarð króna fyrir þær sakir. Það er 82% niðurskurður á þróunaraðstoð.

Jafnframt vill ráðherra, sem hefur varnarmál á sinni könnu, minnka útgjöld til þess málaflokks um 257 milljónir króna.

Ingibjörg Sólrún sagði einni að ráðuneytið myndi endurmeta þátttöku í ýmsum alþjóðlegum atburðum. Þó væri ljóst að mikilvægi þátttöku Íslands í Bókamessunni í Frankfurt árið 2011 væri slíkt, að þar yrði ekkert  skorið þar niður.

Hins vegar yrði kostnaður við heimssýninguna í Shanghai minnkaður um 70% og víðar dregið úr útgjöldum á viðlíka sviðum.

Sendiráðum fækkað um fjögur

Fjórum íslenskum sendiráðum erlendis verður lokað í sparnaðarskyni, en þar ræðir um sendiráðin í Róm á Ítalíu, Colombo á Sri Lanka og í Pretoríu í Suður-Afríku.

Þá verður sendiráði fastanefndarinnar við Evrópuráðið í Strassborg í Frakklandi. Öll eru sendiráðin fremur smá í sniðum.

Innan skamms verða kynntar frekari breytingar á utanríkisþjónustunni, einkum hvað varðar skipan sendiherra, en þær ákvarðanir bíða samþykkis viðkomandi gistiríkja eins og prótokollur leyfir. Verða þær ekki kynntar fyrr en það liggur fyrir.

Sendiherrum fækkað og nýr skipaður

Gert er ráð fyrir að sendiherrum fækki nokkuð, enda nokkrir þeirra að komast á aldur og er fyrirhugað að semja um starfslok við suma.

Þó hefur kvisast út að Albert Jónsson sendiherra í Washington í Bandaríkjunum verði kvaddur þaðan og skipaður aðalræðismaður í Færeyjum. Í hans stað verður komi Hjálmar W. Hannesson, enn hann stýrði framboði Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem sendiherra fastanefndarinnar í New York.

Einn nýr sendiherra hefur þó verið skipaður, en það er Kristín A. Árnadóttir, sem var ráðinn tímabundinn verkefnisstjóri framboðs Íslands til öryggisráðsins í fyrrasumar, en hún var áður aðstoðarmaður Ingibjargar Sólrúnar í borgarstjóratíð hennar.

Kristín verður þó ekki sendiherra á erlendri grund, heldur mun hún verða skrifstofustjóri nýrrar skrifstofu yfirstjórnar utanríkisráðuneytisins. Með þeirri tilhögun þarf ekki að auglýsa það starf.