Danski drykkjavöruframleiðandinn Royal Unibrew, sem FL Group á 24,4% hlut í, hefur samþykkt kaup á 52% hlut í bruggverksmiðjunni St. Vincent Brewery, sem er á eyjunni St. Vincent í Karíbahafinu, segir í tilkynningu.

Kaupin hljóða upp á 575 milljónir króna og er því heildarverðmæti fyrirtækisins 1,1 milljarður króna. Fyrir kaupin átti Royal Unibrew, sem er annar stærsti drykkjarvöruframleiðandinn á Norðurlöndunum, 24% hlut í St. Vincent Brewery og á því nú 76% hlut. Eftirstöðvarnar eru að mestu í eigu innlendra fjárfesta.

Fjárfestingin markar áframhaldandi sókn á þessu svæði, en Royal Unibrew hefur undanfarið keypt í drykkjavöruframleiðslu á eyjunum Antigua og Dominicu. Með kaupunum mun Royal Unibrew tryggja sér leiðandi stöðu í landinu og styrkja stöðu fyrirtækisins á öllu svæðinu. Með kaupunum mun fyrirtækið fá aðgengi að góðum vörumerkjum og sterku eignasafni. Samlegðaráhrif liggja í sparnaði sem verður í innkaupum, framleiðslu, sölu, markaðssetningu, dreifingu og stjórnun, segir í tilkynningunni.

St. Vincent Brewery er að mestu skuldlaust og námu tekjur fyrirtækisins um 930 milljónum króna á síðasta ári og var hagnaður fyrir skatta um 120 milljónir króna. Fyrirtækið áætlar að tekjur þessa árs verði svipaðar og árinu áður, en að hagnaður verði minni vegna samrunakostnaðar og virðisaukaskatts. Talið er að rekstur St. Vincent Brewery verði talinn með í uppgjöri Royal Unibrew frá og með 1. júlí 2007.