Niðurstaða skýrslu iðnaðarráðherra um rannsóknir á Drekasvæðinu er sú að mælt er með því að bæta fyrirliggjandi hafnaraðstöðu á Vopnafirði til þess að koma upp þjónustuaðstöðu fyrir olíu- og gasleit á rannsóknarborunarstigi.

Í skýrslunni er bent á að ekki er á þessu stigi unnt að svara því hvort komast megi af með svæði, sem til að byrja með væri minna en 3 hektarar. Svar við slíku fæst í samvinnu við þann aðila sem hlýtur leyfi til rannsóknarborana eftir útboð, og/eða aðila sem hyggst þjónusta þá starfsemi.

Á Vopnafirði má koma upp 1,5 hektara samfelldu svæði fyrir þjónustuaðstöðu á núverandi hafnarsvæði. Ekki er þörf á dýpkun eða auknum fyllingum en koma þarf fyrir stálþili, viðlegukanti og þekju að hluta til. Kostnaður við slíka uppbyggingu er talin vera um 150 milljónir í skýrslunni.