J.P. Morgan Chase átti í gærkvöldi í viðræðum um að fimmfalda tilboð sitt í Bear Stearns, að því er segir í frétt New York Times. Bear Stearns lenti í erfiðleikum fyrir rúmri viku og þurfti aðstoð Seðlabanka Bandaríkjanna og JP Morgan til að geta staðið við skuldbindingar sínar. Á sunnudag fyrir viku náðist samkomulag um að JP Morgan mundi greiða 2 dali fyrir hlutinn í Bear Stearns, sem hafði á föstudeginum staðið í 35 dölum eftir að hafa fallið hratt í verði.

Margir hluthafar Bear Stearns hafa verið ósáttir við tilboð JP Morgan og hærra tilboði nú, 10 dölum, er ætlað að fá þessa hluthafa til að samþykkja, en þeir höfðu hótað að berjast gegn samkomulaginu.

Samþykki Seðlabankans þarf til að breyta fyrra samkomulagi. Að sögn New York Times liggur enn ekki fyrir hvort nýir samningar takast. Væntingar voru um það í síðustu viku að samningar um hærra verð mundu nást og lokaverð hlutabréfa Bear Stearns á föstudag var 5,96 dalir.

Markaðir eru opnir í Bandaríkjunum í dag og þá kemur í ljós hvernig viðbrögðin verða við þessum mögulegu breytingum á samkomulagi stjórnenda JP Morgan og Bear Stearns.