Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er í skoðun að Nýi Landsbankinn kaupi gjaldmiðlaskiptasamninga sjávarútvegsfyrirtækja af Gamla Landsbankanum og borgi 50% af verðmæti þeirra.

Viðræður hafa staðið yfir um langt skeið hvernig eigi að ljúka gjaldmiðlaskiptasamningum við gömlu bankanna. Þar sem stærsti hluti samninga sjávarútvegsins er við Landsbankans þá hafa viðræður þar um verið við skilanefnd hans en einnig hafa fulltrúar fjármálaráðuneytisins og Fjármálaeftirlitsins komið að málinu.

33 sjávarútvegsfyrirtæki munu vera með gjaldmiðlaskiptasamninga við Landsbankann, bæði stór og lítil fyrirtæki. Greiðslustaða þessara fyrirtækja er sem gefur að skilja ákaflega misjöfn. Ef pakkinn færi milli banka með þessum hætti myndi verðmæti hans byggjast á því hvernig gengur að innheimta kröfurnar. Þar skiptir miklu miðað við hvaða gengisvísitölu er miðað.

Sjávarútvegurinn hefur rétt eins og lífeyrissjóðirnir farið fram á að gera samninganna upp miðað  gengisvísitöluna 175 en vísitalan stóð í því þegar bankakerfið féll í upphafi október. Frá og með þeirri stundu hefur í raun ekki verið hægt að uppfylla samninganna. Miðað við þá vísitölu munu skuldir sjávarútvegsfyrirtækanna vera nálægt 17 milljörðum króna. Þegar fyrst var farið að ræða um slíkt uppgjör þá var vísitalan nálægt 235 og miðað við þá tölu væru skuldirnar á bilinu 25 til 30 milljarðar króna.