Ljóst er að endurreisn sparisjóðakerfisins mun fela í sér grundvallarbreytingu á sparisjóðunum hér á landi. Eftir hana mun ríkið verða langstærsti eigandi sparisjóðanna og því verða rætur þeirra í gegnum eignarhald ekki í heimabyggð eins og verið hefur frá upphafi þeirra. Horft er þó til þess að ríkið verði ekki eigandi sparisjóðanna til framtíðar heldur muni stofnfjáreigendur verða á starfssvæði sjóðanna.

Sparisjóðirnir, sem Seðlabanki Íslands hefur þegar náð samkomulagi við en stofnfjáreigendur eiga eftir að samþykkja í sumum tilfellum, eru Sparisjóður Svarfdæla, Sparisjóður Vestmannaeyinga, Sparisjóður Þórshafnar, Sparisjóður Höfðhverfinga, Sparisjóður Bolungarvíkur og Sparisjóður Norðfjarðar. Sparisjóður Húnaþings er síðan hluti af SpKef en margir stofnfjáreigendur í þeim sjóði standa höllum fæti vegna íþyngjandi lána sem tekin voru til þess að auka stofnfé sjóðsins.