Lögmaður á lögfræðistofu á höfuðborgarsvæðinu rukkaði viðskiptavin um fjórðung úr tímakaupi, eða um 4.625 krónur, þegar hann hringdi til að spyrja hvort lögmaðurinn gæti tekið mál hans að sér. Skráð lengd símtals í farsíma lögmannsins er ein mínúta samkvæmt yfirliti sem maðurinn fékk frá Vodafone. Lögmaðurinn rukkaði einnig í tvígang um fjórðung úr tímakaupi vegna örstuttra tölvupósta. Kemur þetta fram í frétt Fréttablaðsins.

Þetta er meðal þess kemur fram í kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna vegna gjaldtöku lögmannsins. Viðskiptavinurinn segir í kvörtun sinni, sem Fréttablaðið hefur undir höndum, að lögmaðurinn hafi greint frá því að hann ynni á tímagjaldi sem væri 18.500 krónur.

Í kvörtuninni getur viðskiptavinurinn þess að sér hafi ekki á neinum tímapunkti verið gerð grein fyrir reglum eða gjaldskrá sem gilda um lágmarkstímaeiningar. Verðskrá hafi heldur ekki verið sjáanleg á staðnum.