Héraðsdómur Reykjavíkur hefur ómerkt ummæli sem birt voru í grein í tímaritinu Ísafold  fyrir ári, en þar var vegið að nektardansstaðnum Goldfinger í Kópavogi og voru ábyrgðarmenn greinarinnar, Jón Trausti Reynisson og Dögg Kjartansdóttir, dæmd til að greiða veitingamanninum þar, Ásgeiri Þ. Davíðssyni, samtals 1,7 milljón króna í miskabætur, málskostnað og til að greiða fyrir birtingu dómsins opinberlega.

Málavextir eru þeir helstir að fyrir réttu ári birti tímaritið Ísafold grein þar sem m.a. var fjallað um Goldfinger. Í stefnu Ásgeirs sagði m.a. að í greininni hafi m.a. verið staðhæft að starfsstúlkur á Goldfinger væru nútímaþrælar án hlekkja og tilneyddir þátttakendur í ólögmætu athæfi.

Síðan segir:

„Í greininni er ítrekað fullyrt að vændi sé stundað á veitingastað stefnanda og starfstúlkur staðarins séu ýmist kallaðar druslurnar eða hórurnar af yfirmönnum sínum og samstarfsfólki og sagt að stúlkurnar geti átt von á allt að milljón krónum í laun á mánuði ef þær vinna öll kvöld og selja sig, en vændið á meðal annars að vera stundað i dansklefunum á Goldfinger. Síðan segir að flestar stelpurnar frá Austur-Evrópu séu ekki dansarar heldur vændiskonur og það sé ætlast til þess að stúlkurnar stundi vændi en stúlkurnar fái hærri laun hér á landi fyrir að þjónusta karlmenn kynferðislega en þær geti fengið í heimalandinu.

Í greininni er síðan stefnandi bendlaður við alþjóðlega glæpastarfsemi og sagt að hinir svokölluðu umboðsmenn stúlknanna, sem starfa hjá stefnanda, séu í mafíunni og að mafían eigi stúlkurnar, en skipulagðir glæpahringir auglýsi stöðugt eftir konum, sem vilja fara utan að vinna. Þá er því haldið fram að nánasti samstarfsmaður stefnanda sé þekktur í undirheimunum undir nafninu Guðfaðirinn.“

Sakaður um vændisstarfsemi, mansal og mafíutengsl

Ásgeir taldi sýnt að ummælin fælu í sér mjög alvarlegar aðdróttanir að æru sinni, enda honum gefið að sök að stunda vændisstarfsemi og hafa viðurværi sitt af slíkri starfsemi, mansal með konur og börn til kynlífsþjónustu, frelsissviptingu og tengsl við skipulagða alþjóðlega glæpastarfsemi.

Því bæri að ómerkja þau, enda væru þau úr lausu lofti gripin og þar að auki óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus og til þess fallin að sverta ímynd hans. Hefðu ummælin fengið mjög á hann og þau væru mjög rætin og helber uppspuni. Héraðsdómur  féllst á með  stefnanda að ummælin vægju að æru hans og bæru ábyrgum aðilum að greiða miskabætur og annan kostnað.