Rússar hyggjast vinna að því að koma á fót fiskmóttöku í nágrenni við rússneska námabæinn Barentsburg á Svalbarða á þessu ári. Greint er frá þessu á vefsíðu blaðsins Svaldbardposten í gær. Með þessu hyggjast Rússar auðvelda fiskveiðiskipum sínum að athafna sig á þessum slóðum.

Engin fiskvinnsla né fiskmóttaka hefur verið á Svalbarða, hvorki í Barentsburg, né nálægum náma- og háskólabæ Norðmanna í Longyearbyen. Norska blaðið NTB fjallar líka um málið og segir að norskir sérfræðingar komi til með að standa á bak við byggingu fiskmóttökunnar. Ástæðna er einkum sú að norskir aðilar eigi auðveldara með að gangast undir ströng umhverfisverndarskilyrði sem norsk yfirvöld hafa sett á Svalbarða og Rússar verða að undirgangast.

Norðmenn túlka þessi uppbyggingaráform sem svo að Rússar séu að reyna að styrkja stöðu sína á Svalbarða. Hafi þeir m.a. rætt um að efla ferðamannaþjónustu og að koma upp flugvelli í nágrenni við Barentsburg. Hingað til hafa þeir þurft að notast við flugvöll Norðmanna við Longyearbyen.